Skip to main content

Starfsfólk

Bjarki Jónsson

Framkvæmdastjóri

Guðni Jónsson

Verkstjóri

Jón Ólafur

Stjórnarformaður

Jón Þór

Tækja- og skógarmaður

Skógarafurðir fagna 10 ára afmæli árið 2024 og er fyrirtæki í örum vexti. Verkefnin hafa stækkað ár frá ári með tilheyrandi krefjandi uppbyggingu. Fyrirtækið býr nú yfir gríðarlega afkastamiklum vélum og búnaði til framleiðslu og þurrkunar á úrvalstimbri. Sjálfbærni og kolefnislaus framleiðsla eru okkar aðalmarkmið. Við eigum öflug tæki til að flytja hráefnið úr skógi og frá skógi til sögunarmyllunnar á Víðivöllum. Við sérhæfum okkur í framleiðslu á innanhúss- og utanhússklæðningum úr augnayndis viði íslenskra skóga. Tækjakosturinn býður upp á alls kyns sérvinnslu og hægt er að finna lausnir á flestum sérverkefnum. Í dag erum við klár í að takast á við verkefni af öllum stærðum og gerðum. Með okkar öfluga tækjabúnaði, þekkingu og reynslu erum við tilbúin í flest verkefni sem tengjast skógi og úrvinnslu á skógarafurðum og skilum þér fullunninni vöru úr íslenskum viði.


Fyrirtækið Skógarafurðir ehf er fjölskyldufyrirtæki og var stofnað í nóvember 2014. Eftir að hafa fest kaup á jörðinni Ytri-Víðivöllum II í Fljótsdal var ákveðið að opna þar úrvinnslustöð skógarafurða. Stofnendur Skógarafurða ehf eru feðgarnir Bjarki M. Jónsson og Jón Ólafur Sigurðsson.


Á Víðivöllum ytri II er mikill skógur á misjöfnum aldri. Þar er einn af elstu nytjaskógum landsins og í honum voru fyrstu trén í Fljótsdalsáætlun gróðursett árið 1970 af þáverandi bændum á Víðivöllum ytri, þeim Hallgrími Þórarinssyni og Rögnvaldi Erlingssyni. Sá bændaskógur er á svæði sem skiptist á milli bæjanna Ytri-Víðivellir I og II. Yngri nytjaskógur á ýmsum aldri er á heimajörðinni sem þau hjón og þáverandi eigendur, Þórarinn Rögnvaldsson og Magnhildur Björnsdóttir, eiga mestan heiðurinn af að hafa gróðursett landshlutaverkefni Héraðs- og Austurlandsskóga. Á jörðinni er einnig mikill og gamlan birkiskógur (náttúruskógur) sem þarfnast mikillar aðhlynningar til að koma í veg fyrir sjálfseyðingu.

Jörðin Hrafnsgerði í Fellum er einnig í eigu fjölskyldunnar. Þar hefur verið stunduð skógrækt síðan 1936 þegar Hannes Sigurðsson (afabróðir Jóns Ólafs) byrjaði að safna saman sjálfsáðum græðlingum og gróðursetja á einum stað. Sigurður Jónsson, bróðursonur Hannesar og faðir Jóns Ólafs, tók þátt í þessu með honum fram yfir 1940.

Um 1940 byrjar Hannes að fá plöntur frá Hallormsstað. Töldu margir að það væri ekki gáfulega farið með land og tíma að pota niður trjáplöntum. Fyrsta formlega skógræktargirðingin var girt 1954 en áður hafði verið girt frá bjargi inn að ánni og niður með henni að vestanverðu (í landi Arnheiðarstaða / nú Droplaugarstaða) en það voru upphaflega kúagirðingar. Eftir þetta varð ekki aftur snúið og hófust nú reglulegar gróðursetningar. Jón Ólafur kom fyrst í Hrafnsgerði 1955 og tók þátt í gróðursetningum árlega með þeim systkinum Hannesi og Bergljótu fram á 7. áratuginn. Hann hefur verið viðriðinn skógræktina í Hrafnsgerði allar götur síðan. Hannes lést haustið 1979 og Bergljót 1981 en hennar áhugi og hlutur var ekki síðri en Hannesar.


Merkilegasti hluti gamla skógarins í Hrafnsgerði var að mati Sigurðar Blöndal skógræktarstjóra skógarfurulundur sem var liður í tilraunaverkefni rétt upp úr 1950. Þá voru valdir fjórir staðir á landinu og þar gróðursettar skógarfurur. Lundurinn í Hrafnsgerði er sá eini sem lifir og þar dafna fururnar vel og hafa sáð út frá sér.


Árið 1981 tekur bróðursonurinn Sigurður Jónsson við jörðinni og hélt áfram skógræktinni þar sem frá var horfið. Um 1991 hófst gróðursetning aftur af alvöru og tók öll fjölskyldan þátt í því. Sá hluti er oft kallaður „Nýi skógurinn“ til aðgreiningar og frá 1995 er sá hluti inni í Héraðsskógum.

Árið 2006 taka Jón Ólafur og systkini hans við jörðinni af pabba sínum. Það kom í hlut Jóns Ólafs að annast um skóginn og frá 2011 er allur skógurinn í Hrafnsgerði með í Héraðs- og Austurlandsskógum.

Í nytjaskógrækt þarf alltaf að hugsa til framtíðar og því áætlum við að planta árlega nýjum trjám í um 10 hektara lands á hvorri jörð, en það er um 20-40 þúsund plöntur.

BJARKI JÓNSSON, FRUMKVÖÐULL & SKÓGARBÓNDI